Innlent

Heildarafli íslenskra skipa minni en í fyrra

MYND/Vísir

Heildarafli íslenskra skipa í nóvember var 97,4 þúsund tonn og dróst saman um 29,2% frá sama mánuði í fyrra. Samdráttinn má helst skýra með minni síldarafla en einnig minnkaði þorsk- og ýsuafli á milli ára. Milli ára dróst verðmæti fiskaflans saman um 11,1% á föstu verðlagi. Frá þessu er greint í Vegvísi Landsbankans.

Botnfiskafli í nóvember var rúm 44,3 þúsund. tonn og dróst saman um 2,3 þús. tonn frá sama mánuði 2004. Þorskafli dróst þónokkuð saman á milli ára en í nóvember var hann 20,4 þús. tonn en var 22,5 þús. tonn í fyrra. Ýsuaflinn dróst einnig saman eða um 6% og er nú 9,4 þús. tonn. Af ufsa veiddust hins vegar tæp 7,9 þús. tonn og er það um 7,6% aukning á milli ára.

Það sem af er árinu hefur heildarafli íslenskra skipa dregist saman um tæp 2,9% miðað við sama tímabil 2004 og nemur nú tæpum 1596 þús. tonnum. Minni kolmunnaveiði skýrir stóran hluta lækkunarinnar. Niðurstaðan er sú að það sem af er árinu hefur heildar aflaverðmæti dregist saman um 3% á föstu verðlagi miðað við árið 2004.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×