Innlent

Tíðni ungbarnadauða í heiminum lægst á Íslandi

Börn í Úganda í Afríku.
Börn í Úganda í Afríku. MYND/Reuters

Tíðni ungbarnadauða í heiminum er lægst á Íslandi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í morgun. Hundruð milljóna barna þjást vegna mikillar misnotkunar og kúgunar og eru beinlínis ósýnileg gagnvart umheiminum.

Í skýrslunni er fjallað um aðstæður barna víða um heim sem margar hverjar eru vægast sagt afar slæmar. Í fimmtíu vanþróuðustu löndum heims deyr til að mynda eitt af hverjum tíu börnum fyrir eins árs aldur, og eitt af hverjum sex nær ekki fimm ára aldri. Þá er þriðjungur barna í þessum löndum nokkuð eða töluvert undir eðlilegri þyngd.

8,4 milljónir barna vinna við verstu hugsanlegu aðstæður, þar á meðal við vændi og í þrælavinnu. Nærri tvær milljónir barna eru notuð í kynlífsiðnaðinum þar sem þau eru kerfisbundið misnotuð og beitt ofbeldi.

Samkvæmt skýrslunni er Ísland, ásamt Singapúr, með lægstu tíðni ungbarnadauða, þ.e. barna undir 5 ára aldri, eða þrjú dauðsföll af hverjum þúsund lifandi fæðingum. Efst á blaði er hins vegar Síerra Leóne þar sem 283 af hverjum þúsund börnum deyr fyrir fimm ára aldur. Listinn nær yfir öll lönd heims, eða 192 talsins. Ísland er einnig með eina lægstu tíðni smábarnadauða, eða barna undir eins árs aldri, þar sem eru tvö dauðsföll á hverja þúsund lifandi fæðingar.

Í skýrslunni kemur fram að tíðni ungbarnadauða hér á landi hefur lækkað um 6,1 prósent að meðaltali á ári frá árinu 1990 og telst það nokkuð mikil lækkun. Gera má ráð fyrir að lækkunin hafi verið enn hraðari fyrr á öldum þar sem tíðni ungbarnadauða á Íslandi var ein sú hæsta fyrir um 150 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×