Innlent

Persónulegir munir Bobby Fischer til sölu á ebay

Sautján stórir pappakassar eru til sölu á ebay og innihalda rúmlega eitt þúsund hluti sem eru eða voru í eigu skáksnillingsins Bobbys Fischers. Álitamál er hvort uppboðið sé lögmætt og hafa hópar hérlendis sem erlendis áhuga á að athuga hvort hægt verði að koma búslóðinni í hendur Fichers.

Leigusalinn seldi kassana, fyrir sex árum á flóamarkaði og innihald þeirra vegur 250 kíló. Nú er þetta allt til sölu á ebay og eru settir fimmtán þúsund dollarar eða tæp milljón íslenskra króna á varninginn en einnig er hægt að kaupa þetta strax á þrjátíu þúsund dollara. Uppboðið hófst síðastliðinn föstudag og því lýkur þann nítjanda þessa mánaðar. Meðal muna eru skákbækur, minnisbækur með leikfléttum og ýmsum athugasemdum snillingsins. Einnig er þar að finna handrit Fischers að einu útgefnu bók hans sem á ensku heitir My 60 most memorable games. Þarna er einnig skákbókasafn sem telur um það bil fimm hundruð bækur. Á vefsíðunni www.chessbase.com er sett fram sú spurning hvort uppboðið sé lögmætt. Og einnig bent á að hugsanlegt væri að einhver tæki sig til og reyndi að koma gögnunum til Fishers sjálfs.

Fischer sjálfur segist líta svo á að um þýfi sé að ræða og hann eigi ekki að þurfa að kaupa aftur eign sína.

Stuðningsmenn Bobbys Fischers hér á landi ætla að ráða ráðum sínum í kvöld. Til greina kemur að þeir kaupi varninginn og skili honum í hendur Fischers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×