Innlent

Borun Kárahnjúkaganga tveimur mánuðum á eftir áætlun

MYND/GVA

Borun Kárahnjúkaganga er orðin tveimur mánuðum á eftir áætlun og stefnir í að ítalski verktakinn Impregilo muni krefja Landsvirkjun um milljarða króna vegna óvæntra aðstæðna við borunina.

Sigurður Arnalds, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, staðfestir í viðtali við Fréttablaðið að viðræður vegna krafna verktakans séu á byrjunarstigi, en það er einkum vatnsagi og laust berg, sem ekki var búist við, sem tafið hafa framkvæmdir við göngin, sem eiga að flytja vatn að vélum stöðvarhússins.

Eins og greint hefur verið frá ætlaði Landsvirkjun sér um það bil tíu milljarða króna til að mæta óvæntum verkþáttum og eftir því sem fréttastofa NFS kemst næst hefur hátt í helmingur þess fjár þegar verið reiddur fram, meðal annars vegna meira umfangs við undirstöðu aðal stíflunnar en gert var ráð fyrir og vegna bráðaaðgerða til að koma í veg fyir flóð á stíflustæðinu.

Einn boranna þriggja hefur ekkert borað síðan í sumar þegar hætt var við að láta hann klára sinn áfanga og ákveðið var að snúa honum við. Það verk hefur tafist. Annar borinn fer mjög hægt í lausu bergi en þeim þriðja gengur vel þessa stundina. Mikið er í húfi að vinna upp tafirnar því til stendur að að gangsetja fyrstu vél virkjunarinnar í apríl árið 2007, eða eftir 16 mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×