Innlent

Spurning um trúverðugleika bankans

MYND/Vísir

Seðlabankinn tapaði trúverðugleika í gær, segir Greining Íslandsbanka, með of lítilli stýrivaxtahækkun. Bankinn segir að krónan veikist eftir helgi.

Mun mildari tónn var í Peningamálum, ársfjórðungsriti Seðlabanka Íslands, sem birt var í gær, gagnvart stöðu efnahagsmála en í útgáfu ritsins í lok september. Þá kvað við harðari tón en stýrivextir voru þá hækkaðir um 0,75 prósentustig. Stýrivextir bankans verða nú 10,50 prósent frá og með 6.desember næstkomandi. Greiningadeildir bankanna sendu frá sér álit í gær eftir að ljóst var hver hækkun stýrivaxta bankans yrði. Í áliti Íslandsbanka segir að ákvörðun bankans sé óheppileg fyrir trúverðugleika og verðbólgumarkmið Seðlabankans. Hækkun upp á einungis 0.25 prósentustig sé lítil, segir Íslandsbanki, í ljósi þess að verðbólguspá Seðlabankans bendir til að verðbólga verði langt yfir markmiðum bankans ef litið sé 12-24 mánuði fram í tímann. Seðlabankinn gefi heldur ekkert út um hvort framhald verði á hækkunum stýrivaxta líkt og gert var við síðustu hækkun. Segir greiningardeildin jafnframt að búast megi við því að krónan lækki við opnun markaða á mánudag.

Í Vegvísi Landsbankans segir hins vegar að ákvarðanir Seðlabankans hafi verið nokkuð hlutlausar og ættu ekki að hafa afgerandi áhrif á gjaldeyrismarkaðinn. Greiningardeild KB-banka tekur í sama streng og greiningardeild Íslandsbanka og segir hættu á að vaxtavæntingar markaðarins hliðrist aftur niður vegna ákvörðuninnar. Það hafi meðal annars í för með sér lækkun á gengi krónunnar. Verðbólguvæntingar geti hækkað á nýjan leik og ávinningurinn síðan í september þá tapast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×