Innlent

Heildartekjur kúabúa og sauðfjárbúa aukast milli ára

Mynd/Vísir

Heildartekjur á sérhæfðum kúabúum og sauðfjárbúum jókst nokkuð á síðasta ári frá árinu 2003. Sama má segja um innlögn afurða, þrátt fyrir að bústofn haldist nánast óbreyttur.

Þetta kemur fram í búreikningarskýrslu 2005 frá Hagþjónustu Landbúnaðarins. Skýrslan byggir á rekstarútreikningum fyrir árið 2004. Sérhæfð bú teljast þau bú sem hafa að 70% eða af reglulegum tekjum sínum af einni búgrein og afurðum hennar.

Samkvæmt samanburði frá árinu 2003 hafa heildartekjur á sérhæfðum kúabúum aukist um 8,3% og eru að meðaltali 15.190.000. Þessar tölur byggja á samanburði 135 búa frá árinu 2003. Þá er hagnaður fyrir laun eigenda að meðaltali 1.929.000 sem er 3,3% aukning milli ára. Innleg mjólkur í afurðarstöðvar eykst milli ára um rúm 5%, þrátt fyrir nánast óbreyttan bústofn.

Heildartekjur á sérhæfðum sauðfjárbúum aukast um 5,6% og er því sem nemur 4.158.000 krónur að meðaltali fyrir 53 sauðfjárbú. Hagnaður fyrir laun eigenda nam að meðaltali 996.000 krónum sem er 3,8% aukning milli ára. Innlegg sauðfjárafurða eykst einnig milli ára þrátt fyrir sömuleiðis nánast óbreyttan bústofn og nemur aukningin rúmum 12%.

Skuldir bænda virðast vera að aukast milli ára. Auknar fjárfestingar á tækjum og vélum er aðalástæðan. Kúabændur eru frekar í kvótakaupum en sauðfjárbændur. Einkaútgjöld eru með í útreikningunum og eru ekki aðgreind sérstaklega.

Alls voru bókhaldsgögn frá 346 búum til útreikninga í búreikningaskýrslunni en þar af framleiddu búin 28,3% mjólkur sem lögð var inn í afurðastöðvar á landinu á árinu 2004 og 13,2% kindakjöts. Búin senda sjálf inn upplýsingar til útreikninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×