Sport

Blóðugur sigur hjá Ricky Hatton

Ricky Hatton sýndi mikla hörku og náði að klára andstæðing sinn í gærkvöld, þó hann væri sundurskorinn frá byrjun.
Ricky Hatton sýndi mikla hörku og náði að klára andstæðing sinn í gærkvöld, þó hann væri sundurskorinn frá byrjun. NordicPhotos/GettyImages

Breski hnefaleikarinn Ricky Hatton er heimsmeistari hjá IBF og WBC samböndunum eftir öruggan en blóðugan sigur gegn Carlos Maussa í Sheffield í nótt. Þrátt fyrir að hljóta ljóta skurði við bæði augu mjög snemma í bardaganum, var sigur Hatton aldrei í hættu og hann vann á rothöggi í níundu lotu.

Hatton mætti ekki á blaðamannafund eftir bardagann, þar sem hann fór beint á sjúkrahús til að láta huga að skurðunum í kring um augun á sér. Talið er að hann þurfi í það minnsta hálft ár til að jafna sig af þessum skurðum, en Hatton tileinkaði föður sínum sigurinn í gær.

"Þetta var nokkuð erfiður sigur, því hann hörfaði mikið undan mér og notaði mjög skringilegan stíl. Ég meiddist svona mikið af því ég var kannski full ákafur og glannalegur í sókninni, en mér fannst sigur minn aldrei í hættu. Mig langar að tileinka sigurinn pabba mínum, því ég væri ekki þar sem ég er í dag án hans," sagði Hatton, sem bíður nú eftir að fá stóran bardaga í Las Vegas næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×