Innlent

Landamærastöðin í Rafah opnuð í morgun

Mikil gleði ríkti þegar Palestínumenn fóru yfir landamærin frá Gaza til Egyptalands, í fyrsta sinn eftir að palestínska heimastjórnin tók við stjórn landamærastöðvarinnar í Rafah.

Hingað til hefur fólk þurft að bíða tímunum saman til að komast í gegnum eftirlit Ísraela og margir hafa alls ekki fengið að fara yfir landamærin. Palestínska heimastjórnin hefur nú sjálf eftirlit með landamærunum en Ísraelar fylgjast með í gegnum myndavélakerfi. Í upphafi verður aðeins opið í fjóra tíma á dag en þegar fleiri eftirlitsmenn Evrópusambandsins mæta á staðinn um miðjan desember verður opið lengur. Sveinn Rúnar Hauksson læknir var á ferð um Rafah í síðustu viku.

Landamæravarsla er ein af birtingarmyndum fullveldis og því er stöðin í Rafah mikilvæg Palestínumönnum. Sveinn Rúnar segist vera orðinn bjartsýnni en áður um framtíð friðarferlisins eftir að Sharon forsætisráðherra Ísraels stofnaði nýjan flokk.

Kosningar eru framundan bæði í Ísrael og Palestínu snemma á næsta ári. Í þeim getur ráðist hvort friður verður ofan á fyrir botni Miðjarðarhafs eða áframhaldandi átök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×