Innlent

Lögsókn úr launsátri

MYND/Hari

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hélt nú klukkan tvö blaðamannafund undir yfirskriftinni „Lögsókn úr launsátri", þar sem hann kynnti greinargerð sína vegna meiðyrðadóms sem féll yfir honum í Bretlandi vegna ummæla um athafnamanninn Jón Ólafsson. Á fundinum rakti Hannes hvers vegna hann teldi að bresk lögsaga gilti ekki um ummælin sem hann var dæmdur fyrir auk þess sem hann varði ummælin og sagði þau bæði sönn og eðlileg í því samhengi sem þau voru sett fram í.

Einnig ræddi Hannes að það hafi einungis verið fyrir „handvömm vefstjóra Háskólans" að ummælin hafi ekki verið tekin af vefnum eins og hann bað um. Með greinargerðinni fylgja þau fyrirmæli að það sé stranglega bannað að þýða hana yfir á ensku eða dreifa henni í enskumælandi löndum. Það gerir Hannes til að forðast lögsókn fyrir að endurtaka ummæli sem hann hefur nú þegar verið dæmdur fyrir.

Hannes sagði að hann hefði aldrei ætlað sér að brjóta lög, enda hefði hann talið að ummælin væru lögleg hér á Íslandi og að honum hefði aldrei dottið í hug að hann þyrfti að svara fyrir þau í annari lögsögu. Einnig minntist hann á hversu ströng meiðyrðalöggjöfin í Bretlandi er og tók sem dæmi að bandarískir dómstólar hefðu þá skoðun að breska löggjöfin stríddi gegn stjórnarskrárbundnu málfrelsi.

Hann tók fjöldamörg dæmi um blaðagreinar þar sem því hefur verið haldið fram að Jón Ólafsson hefði hagnast með ólöglegum aðferðum, svo sem eins og fíkniefnasölu og skattsvikum. Hans orð hafi einungis bent á þá opinberu umræðu sem fram hefði farið um þau mál.

Að lokum spurði hann þá sem á hlýddu hvort eðlilegt væri að hann væri sviptur aleigunni fyrir sakir sem þessar.

Blaðamannafundurinn var í beinni útsendingu á NFS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×