Innlent

Vill að Fiskistofa svari

Fiskistofa þverbrýtur allar stjórnsýslureglur þegar hún neitar að upplýsa um leigukvótaviðskipti síðasta árs sem námu 9 milljörðum króna. Þetta segir Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins sem hefur óskað eftir því að Sjávarútvegsráðherra reki á eftir stofnuninni að svara.

Sigurjón Þórðarson óskaði upplýsinga hjá Fiskistofu um viðskipti með aflamark á síðasta ári, það er að segja svokallaðan leigukvóta. Fiskistofa neitaði Sigurjóni um upplýsingarnar á þeirri forsendu að ósk hans um upplýsingar væri ekki nógu skýr og í kjölfarið úrskurðaði sjávarútvegsráðuneytið að Fiskistofa skyldi - í takt við upplýsingalög - leiðbeina Sigurjóni um hvernig óska ætti upplýsingana.

Úrskurðarnefnd um Upplýsingamál óskaði síðan eftir gögnunum sem trúnaðarupplýsingum til að leggja mat á kröfur um birtingu. Þær upplýsingar hafa ekki borist upplýsinganefnd að sögn Sigurjóns og því hefur hann leitað liðsinnis sjávarútvegsráðsráðherra í fyrirpurn þar sem hann spyr hvers vegna gögnin séu ekki lögð fram.

Sigurjón segir ljóst að um sé að ræða viðskipti með leiguaflamark sem nemi jafnvel 25 milljónum á dag, miðað við síðasta ár. Því sæti það furðu að opinber stofnun eins og Fiskistofa skuli ítrekað reyna að koma sér undan því að veita slíkar upplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×