Innlent

Kertasníkir á leið til Finnlands

Kertasníkir millilenti á Reykjavíkurflugvelli í dag en hann er á leið frá Mývatni til Finnlands á jólasýningu. Kertasníkir var í sínu fínasta pússi en íslensku jólasveinarnir eru komnir í nýja búninga.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók á móti Kertasníki á Reykjavíkurflugvelli í dag. Kertasníkir er á leið til jólaþorpsins Rovaniemi í Norður-Finnlandi þar sem hann mun vera gestur á jólasýningu. Með honum í för er starfsfólk Snow Magic verkefnisins á Mývatni sem eiga veg og vanda að þátttöku Íslands á sýningunni en alls munu 10 þjóðir senda fulltrúa á jólasýninguna.

Kertasníkir kemur aftur til Íslands eftir helgina og þá hefst jólaundirbúningurinn. En varð ekkert ósætti um hver þeirra bræðra ætti að fara til Finnlands? Kertasníkir segir svo ekki vera þrátt fyrir að Hurðaskelli sé farið að langa að fara að stað og skella hurðum. Þeir bræður hafi ákveðið í sameingu að best væri að Kertasníkir færi til Finnlands þar sem hann hefur lengstan tíma til jólaundirbúnings enda kemur hann síðast til byggða af jólasveinunum 13.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×