Erlent

Vél sem lenti hér notuð til að flytja fanga til pyntingar

MYNd/Stöð 2

CIA-vélin sem var í tæpan sólarhring á Reykjavíkurflugvelli hefur meðal annars verið notuð til að flytja Kanadamann til Jórdaníu þar sem hann var pyntaður.

Vélin, sem er skrúfuþota með skráningarnúmerinu N196D, flaug héðan til St. Johns í Kanada, þaðan til New Hampshire og loks til Norður-Karólínu. Kanadamenn tóku eftir ferðum hennar og þarlendir blaðamenn hafa nú komist að því að hún hafi verið notuð þegar verkfræðingur frá Ottawa var fluttur nauðugur til Jórdaníu árið 2002.

Hann segist hafa verið fluttur frá New Jersey til Washington og svo Maine, þaðan til Rómar og loks Jórdaníu. Þaðan hafi verið ekið með hann með bundið fyrir augun til Sýrlands þar sem hann var fangelsaður og yfirheyrður. Hann var talinn al-Qaeda liði. Mál mannsins er nú til opinberrar rannsóknar.

Danska blaðið Politiken greinir einnig frá því í dag, að CIA-vélar sem lent hafa í Danmörku og farið um danska lofthelgi hafi lent 64 sinnum á Guantanamo-herstöðinni á Kúbu. Þær hafa einnig lenti í Kabúl, Úsbekistan og Bagdad.

Loks greina fjölmiðlar á Möltu frá því að CIA-vélar hafi millilent þar, meðal annars á leið frá Kaíró og til Trípólí. Önnur vélin sem blaðið Malta Independent greinir frá hélt þaðan hingað til lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×