Erlent

Vilja erlenda fjárfesta til að fjárfesta í Úkraínu

Öflug markaðsherferð er hafin í Úkraínu við að fá erlenda viðskiptajöfra til að fjárfesta í landinu. Forseti Úkraínu segir forgangsverkefni að komast inn í Evrópusambandið.

Forseti Úkraínu, Viktor Jústsjenkó, hitti franska viðskiptajöfra í opinberri heimsókn sinni til Frakklands í gær en markmið ferðarinnar er að kynna Úkraínu sem áhugaverðan kost í augum fjárfesta. Þá gekk forsetinn til fundar við Jacques Chirac, forseta Frakklands. Áður en forsetinn heldur heim í dag mun hann einnig ræða við ráðgjafa á vegum franskra orkufyrirtækja varðandi tækifæri í heimalandi sínu. Í ræðu sem forsetinn hélt sagði Jústsjenskó meðal annars að eitt helsta stefnumál ríkisstjórnar Úkraínu, væri að fá aðild að Evrópusambandinu og væri stjórn sín undirbúin fyrir það viðamikla verk, sem fyrir höndum væri áður en til umsóknar kæmi. Spilling þykir mikil í landinu og hefur verið ein helsta ástæða fyrir því að landið er ekki næst á lista inn í Evrópusamabandið með Búlgaríu og Rúmeníu sem eru lengra komin hvað þau mál varðar. Vestrænir fjárfestar hafa þó í auknum mæli verið að horfa til Úkraínu þar sem eftir á að einkavæða mjög stóran hluta fyrirtækja sem er búið að gera í löndunum í kring. Sérfræðingar eru því sammála um að tækifærin séu til staðar, aðeins sé tímaspursmál hvenær fyrirtæki verði einkavædd og að þau geti þá fengist á tiltölulega góðu verði. Stjórnmálin spili þó enn stóran þátt í landinu og sé eflaust hægara sagt en gert að eiga við spillta stjórnmálamenn þar í landi. Forsetinn segir þó tækifærin til staðar enda um tugi milljóna manna markað að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×