Erlent

Bjerregård nýr borgarstjóri í Kaupmannahöfn

Ritt Bjerregård verður borgarstjóri í Kaupmannahöfn eftir kosningasigur jafnaðarmanna í sveitarstjórnakosningum í Danmörku í gær. Hún verður fyrsta konan til að gegna embættinu.

Jafnaðarmenn unnu stórsigur í sveitarstjórnakosningunum í Danmörku í gær, en þeir fengu 34,3% greiddra atkvæða á landsvísu. Flokkurinn náði meirihluta í Kaupmannahöfn, Árósum og Álaborg en tapaði reyndar fylgi í Óðinsvéum þar sem flokkurinn hefur verið í meirihluta síðustu 68 ár. Kosningaþátttaka var tæp sjötíu prósent.

Hægri flokkurinn Venstre fékk 27,5% atkvæða, tæpu einu prósentustigi minna en í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2000. Flokkurinn tapaði þremur borgarfulltrúum í Kaupmannahöfn og Sören Pind, borgarstjóraefni Venstre, ákvað í gær að hætta í borgarstjórn vegna úrslitanna eftir 12 ára setu þar.

Ritt Bjerregård er þó líklega holdgervingur sigurvegarans í þessum kosningum. Bjerregård er 64 ára gömul og hefur verið virk í stjórnmálum í rúma þrjá áratugi. Hún var fyrst kjörin á þing árið 1971 og hefur meðal annars gegnt embætti menntamálaráðherra og matvælaráðherra auk þess sem hún sat í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir Danmörku. Ferillinn hefur þó verið fjarri því áfallalaus, hún hefur tvívegis þurft að segja af sér vegna hneykslismála. En Bjerrågard hefur verið sökuð oftar en einu sinni um að misnota opinbert fé.

Bjerragård þykir hafa mikla persónutöfra og hún hefur sýnt það og sannað að hún á fleiri en eitt og fleiri en tvö pólitísk líf - alltaf rís hún upp eins og fuglinn Fönix og að þessu sinni til að setjast í borgarstjórastólinn í Kaupmannahöfn, fyrst kvenna.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, var meðal þeirra sem sendi Bjerregaard hamingjuóskir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×