Erlent

Umdeild en vinsæl

Ritt Bjerregaard verður næsti borgarstjóri í Kaupmannahöfn eftir stórsigur Jafnaðarmannaflokksins í sveitarstjórnarkosningunum í Danmörku í gær. Endurkoma hennar í embætti þykir merkileg fyrir margra hluta sakir en hún hefur tvívegis verið neydd til að segja af sér embætti og verið mjög umdeildur stjórnmálamaður.

Ritt Bjerregaard er ein umdeildasti stjórnmálamaður Danmerkur. Hún er 64 ára gömul og hefur verið í stjórnmálum í rúm þrjátíu ár. Bjerregaard var fyrst kjörin á þing árið 1971 og hefur meðal annars starfað sem menntamálaráðherra, matvælaráðherra og setið í framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins fyrir Danmörku. Hún hefur þó margoft lent á forsíðum danskra dagblaða í tengslum við ýmiss hneykslismál og tvívegis þurft að segja af þér vegna hneykslismála. Fjármál og eyðsla Bjerregaard sem ráðherra hafa verið gagnrýnd en hún neitaði jafnframt að afsala sér eftirlaunum frá ráðherratíð sinni, þegar hún sat í framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins.

Í sveitarstjórnarkosningunum í gær fengu jafnaðarmenn 34,3% greiddra atkvæða á landsvísu og Venstre flokkurinn fékk 27,5% atkvæða, aðrir flokkar fengu mun minna fylgi. Venstre fékk tæpu einu prósenti minna fylgi en í síðustu sveitastjórnarkosningum árið 2000. Flokkurinn tapaði þremur borgarfulltrúum í Kaupmannahöfn og Sören Pind, borgarstjóraefni Venstre flokksins, ákvað í gær að hætta í borgarstjórn vegna úrslitanna eftir 12 ára setu í borgarstjórn Kaupmannahafnar. Ritt Bjerregaard verður fyrsta konan til að gegna embætti borgarstjóra í Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×