Erlent

Bandaríki herinn notaði bannaðar sprengjur í Falluja í Írak

Bandaríski herinn notaði sprengjur með hvítum fosfór í Írak í fyrra. Þær eru ólöglegar samkvæmt alþjóðlegum sáttmála sem Bandaríkjamenn hafa þó ekki staðfest.

Bandaríkjastjórn hefur viðurkennt að herinn hafi notað sprengjur þessar í borginni Falluja í Írak. Þær eru bannaðar samkvæmt alþjóðlegum sáttmála sem Bandaríkjamenn hafa þó ekki staðfest. Herinn segir sprengjurnar þó ekki flokkast undir efnavopn og séu því ekki ólöglegar. Þær hafi einungis verið notaðar gegn uppreisnarmönnum en aldrei gegn óbreyttum borgurum. Sprengjur þessar voru meðal þeirra vopna sem Saddam Hussein notaði við fjöldamorðin á Kúrdum í byrjun síðasta áratugar. Bandaríska utanríkisráðuneytið vísaði í síðustu viku á bug frétt ítalska ríkissjónvarpsins um að bandaríski herinn hefði notað fosfórsprengjur í Falluja en hefur þó dregið þær fullyrðingar til baka en á blaðamannafundi, sem haldinn var í gær, var ítrekað að þær hefðu einungis verið notaðar á uppreisnarmenn. Ýmsir stjórnmálamenn víða um heim hafa gagnrýnt aðferðir Bandaríkjamanna í stríðrinu gegn hryðjuverkum, þeir brjóti hvað eftir annað alþjóðalög og noti aðferðir sem ekki eru viðurkenndar af alþjóða samfélaginu. Þeir pynti fanga, brjóti lög, noti flugvelli og lofthelgi án leyfis viðkomandi ríkja og vopn sem ekki eru leyfð í siðmenntuðum heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×