Erlent

Um 3000 manns hafa verið handteknir í Frakklandi vegna óeirðanna

Hátt í þrjú þúsund manns hafa verið handteknir undanfarnar þrjár vikur vegna óeirðanna sem geisað hafa í Frakklandi að undanförnu. Þá hafa um sex hundruð manns verið dæmdir til fangelsisvistar.

Neðrideild franska þingsins hefur samþykkt að framlengja neyðarlög í landinu um þrjá mánuði. Er lögunum ætlað að koma í veg fyrir óeirðir eins og þær sem staðið hafa í þrjár vikur í stærstu borgum landsins. Efri deild þingsins mun í dag fjalla um frumvarp ríkisstjórnarinnar en talið er nær öruggt að það verði samþykkt. Dominiques de Villepins, forsætisráðherra landsins, sagði á þingi í gær að málið væri mjög alvarlegt og hefur ríkisstjórnin lofað að koma betur til móts við innflytjendur í landinu meðal annars með því að stuðla að því að yfir 50 þúsund ungmenna fái almennilega þjálfun sem það fái almennileg störf en atvinnuleysi meðal innflytjenda er mun hærra en annarra íbúa Frakklands. Þá eru laun innflytjenda talin vera aðeins 40 prósent annarra þegna landsins. Hátt í þrjú þúsund manns hafa verið handtekin undanfarnar vikur. Þar af hafa 600 verið dæmdir til fangelsisvistar. Óeirðirnar hafa minnkað til muna og var nóttin í nótt tiltölulega róleg. Yfir níu þúsund bílar hafa þó verið eyðilagðir í óeirðunum auk fjölda verslana, skóla og opinberra bygginga og meta tryggingafélög í landinu tjónið á fimmtánda milljarð íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×