Sport

Detroit með 5. sigurinn í röð

NordicPhotos/GettyImages

Þrír leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í gærkvöldi og þar bar hæst að Detroit Pistons skelltu Phoenix Suns á útivelli 111-104 í frábærum leik sem sýndur var í beinni útsendingu á NBATV í nótt. Miami vann nauman útisigur á Houston 88-84 og Atlanta tapaði 5. leiknum í röð, nú gegn LA Clippers 102-95.

Chauncey Billups var stigahæstur í liði Detroit Pistons með 27 stig og gaf 11 stoðsendingar, en hann og Rip Hamilton hittu úr mikilvægum skotum á lokakaflanum og gerðu út um leikinn. Leandro Barbosa var stigahæstur hjá Phoenix með 21 stig.

Dwayne Wade tók leikinn í sínar hendur í fjórða leikhlutanum gegn Houston í gær og skoraði alls 25 stig. Yao Ming skoraði 24 stig og hirti 14 fráköst fyrir Houston, en hvarf algerlega í síðari hálfleik, þar sem hann skoraði ekki nema tvö stig á síðustu 20 mínútunum.

LA Clippers heldur áfram sigurgöngu sinni og hefur unnið fimm af fyrstu sex leikjum sínum. Elton Brand skoraði 23 stig fyrir Clippers og Sam Cassell var nálægt þrennu í leiknum, skoraði 21 stig, gaf 9 stoðsendingar og hirti 8 fráköst. Joe Johnson skoraði mest fyrir Atlanta, 24 stig og hirti 10 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×