Erlent

Fá að sækja strandgæslumenn

Norska strandgæslan hefur fengið leyfi til að sækja tvo strandgæslumenn um borð í rússneska togarann Elektron. Igor Dygalo, talsmaður rússneska norðurflotans, tilkynnti fyrir stundu að norska strandgæslan hefði fengið leyfi til að fara um inn í rússneska lögsögu til að sækja strandgæslumennina. Þeir mega þó ekki sækja þá fyrr en á morgun. Rússneski togarinn Elektron var staðinn að ólöglegum veiðum við Svalbarða á laugardag. Skipstjóri togarans stakk síðan af með tvo norska strandgæslumenn um borð. Fjögur norsk strandgæsluskip eltu togarann en hafa haldið sig fyrir utan tólf mílna mörkin. Strandgæsluskipin gátu ekkert annað gert en að elta togarann en ekki þótti óhætt að gera tilraunir til að stöðva skipið vegna vonskuveðurs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×