Innlent

Sambýli illa mönnuð á Reykjanesi

Illa gengur að manna sambýli og visheimili hvers konar í Reykjavík og nágrenni. Á vistheimilinu Dimmuhvarfi á Reykjanesi vantar í níu stöðugildi af tuttugu og einu. Sambýli og vistheimili eru mörg hver í sama vanda og leikskólar og fleiri opinberar stofnanir um þessar mundir. Það gengur ekkert að ráða nýtt starfsfólk. Víða á höfuðborgarsvæðinu vantar starfsmenn og því treysta yfirmenn á að þeir starfsmenn sem eru til staðar vinni meira en fullt starf. Verst er ástandið á Reykjanesi, þar sem starfsfólk vantar á flest heimili. Á vistheimilinu Dimmuhvarfi vantar fólk í níu stöðugildi af tuttugu og einu. Við störf er því aðeins rúmlega helmingur þess mannafla sem þarf til að reka heimilið eins og gert er ráð fyrir. Allir starfsmenn á Dimmuhvarfi vinna nú meira en tvö hundruð stundir á mánuði. Það dugir hins vegar ekki til og því eru flestar vaktir undirmannaðar. Sjö ættu að vera á hverri vakt, en oft eru aðeins fimm starfsmenn á vaktinni. Svæðisskrifstofa í málefnum fatlaðra á Reykjanesi hefur ákveðið að koma til móts við starfsmennina á meðan vinnuálagið er jafn mikið og raun ber vitni. Ekki sér hins vegar fyrir endan á vandanum, því eins og svo víða í þjóðfélaginu berast mjög fáar umsóknir til svæðisskrifstofunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×