Innlent

Vilja afnema synjunarvald

Sjálfstæðisflokkurinn telur óhjákvæmilegt að fella úr gildi 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins um synjunarvald forsetans. Þetta kemur fram í ályktun landsfundar flokksins frá því um helgina. Í ályktun fundarins er tekið fram að huga eigi að heimild í stjórnarskrá til þjóðar­atkvæðagreiðslu um tiltekin mál. „Þetta kom úr réttarfars- og stjórnskipunarnefnd fundarins og var samþykkt samhljóða,“ segir Geir H. Haarde, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Þjóðarhreyfingin tilkynnti í liðinni viku að hún vari eindregið við því að hróflað sé við ákvæði stjórnarskrár um synjunarrétt forsetans. „Þetta ákvæði snýst frekar um vald forseta Íslands en þjóðaratkvæði. Þjóðarhreyfingin telur að merking þessa ákvæðis sé sú að hér ríki ekki algert þingveldi heldur geti fulltrúi fólksins skotið málum til þjóðarinnar,“ segir Ólafur Hannibalsson hjá Þjóðarhreyfingunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×