Innlent

Hæsta hlutfall virðisaukaskatts

Í nýrri skýrslu efnahags- og framfara stofnunarinnar, OECD, kemur fram að virðisaukaskatturinn er hlutfallslega hæstur hér á landi. Virðisaukinn er 16,3 prósent af þjóðarframleiðslunni á Íslandi, sem er nærri fimm prósentum hærra en meðaltalið innan ríkja OECD. Virðisaukaskatturinn er hlutfallslega lægstur í Bandaríkjunum þar sem hann er meira en þrisvar sinnum lægri en hér á landi, eða 4,6 prósent. Annars staðar á Norðurlöndunum er hlutfallið nokkuð hátt, en þó alls staðar lægra en hér. Þegar litið er á hlutfall virðisaukaskattsins af heildarskatttekjum ríkissjóðs er það sama uppi á teningnum: Ísland í fremstu röð. Hlutfallið er hér fjörutíu og eitt prósent, sem er það þriðja hæsta innan OECD. Aðeins í Mexíkó og Tyrklandi er hlutfallið hærra. Sem fyrr er hlutfall virðisaukans á Íslandi langt yfir meðaltali OECD-ríkjanna, eða heilum níu prósentum. Annað sem vekur athygli í skýrslunni er að hlutfall skatttekna sem hlutfall af þjóðarframleiðslu jókst hvergi jafnmikið og hér á milli áranna 2003 og 2004. Hlufallið er nú tæp 42 prósent og jókst um rúm tvö prósentustig á milli ára. Rétt er að geta þess að aukin velta spilar þarna töluverða rullu. Þegar kemur að sköttum á fyrirtæki kveður við töluvert annan tón en í virðisaukaskattinum. Skattur á fyrirtæki sem hlutfall af heildar skatttekjum er næst lægstur hér á landi innan OECD, eða aðeins 3,9 prósent. Einungis í Þýskalandi er hlutfall skatta á fyrirtæki lægra, eða 3,4 prósent af skatttekjum. Meðaltal OECD er hins vegar langtum hærra, eða rösklega níu prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×