Innlent

Verðstríð á flugverði til Alicante

Tuttugu og tvö þúsund Íslendinga þarf til að fylla vélar Heimsferða og Iceland Express til Alicante næsta sumar. Heimsferðir hafa tvöfaldað sætafjölda sinn úr 3500 sætum í 7000 og Iceland Express býður 15 þúsund sæti í því verðstríði sem nú er hafið á þessari flugleið. Heimsferðir lækka verð sitt á flugmiðum milli Íslands og Alicante á Spáni um þrjú þúsund krónur næsta sumar til að mæta lágu verði hjá Iceland Express. Verð á farmiða milli Íslands og Alicante verður 12.400 krónur en var 15.400 krónur. Heimsferðir munu einnig bjóða fargjöld aðra leiðina frá 5.600 krónum og undirbýður þar með Iceland Express sem býður það á tæpar 8.000 krónur. Að sögn Andra Más Ingólfssonar, forstjóra Heimsferða, ætlar fyrirtækið að auka framboð á flugsætum til Alicante um helming á milli ára og býður á næsta ári sjö þúsund sæti og tvær ferðir vikulega. Hann sagði Heimsferðir alltaf hafa boðið lægsta verðið til Alicante og ætli að halda því áfram. Því er fyrirsjáanlegt að ef Iceland Express lækkar verð sitt enn meira að aftur komi til lækkunar hjá Heimsferðum. Andri Már tók jafnframt fram að ekki væru öll sætin á þessu lága verði heldur aðeins ákveðið hlutfall flugsæta og að ekki hefði enn verið ákveðið hversu mörg þau yrðu. Birgir Jónsson, forstjóri Iceland Express, sagðist fagna því að Heimsferðir litu á þetta sem samkeppni og lækkuðu verð sitt í kjölfarið. Hann sagði einnig að flugsætin yrðu sett í sölu á morgun og þá yrðu öll sætin á þessu verði en hann sagði líkt og Andri Már að ekki væri enn búið að ákveða hversu mörg sæti yrðu á þessu lága verði. Hann hafði fulla trú á því að salan færi vel í gagn og gat þess jafnframt að fyrirtækið hyggðist einnig bjóða ferðir til Kanaríeyja í framtíðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×