Innlent

Greiðsla fyrir fréttalestur óljós

Laun útvarpsstjóra eru ákvörðuð af Kjaranefnd samkvæmt núgildandi lögum. Páll Magnússon útvarpsstjóri má því ekki þiggja sérstaka greiðslu fyrir fréttalestur í sjónvarpinu. Hægt er að senda erindi til Kjaranefndar og fá hana til að kveða upp úrskurð um það hvort greiða eigi útvarpsstjóra sérstaklega fyrir lesturinn eða ekki. Útvarpsstjóri er með samtals rúmlega 700 þúsund krónur í mánaðarlaun. Elín Hirst, fréttastjóri Sjónvarps, segir að Páll fái 130 þúsund krónur á mánuði fyrir að lesa fréttir átta sinnum í mánuði. Sér þyki eðlilegt að greiða honum fyrir slík verk samkvæmt samningum eins og öðrum. Innan Ríkisútvarpsins sé hinsvegar öflugt innra eftirlit í starfsmannahaldinu. Ef útvarpsstjóri megi ekki fá greitt fyrir aukaverk þá fái hann það ekki. Hún búist við að hann haldi samt áfram að lesa fréttir. Guðrún Zoega, formaður Kjaranefndar, segir að útvarpsstjóri geti gert fréttalesturinn sem hluta af starfi sínu án þess að fá sérstaklega greitt fyrir það en annars þurfi að senda erindi til úrskurðar hjá Kjaranefnd. Sér þyki líklegt að erindi sé væntanlegt. Páll Magnússon segir að hann hafi lesið um það í DV að hann fái 130 þúsund krónur á mánuði. Hann viti ekki hvort og þá hvernig verði greitt fyrir fréttalesturinn og kveðst fara yfir málið. Hugsanlega ekki fyrr en í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×