Innlent

Telja sig hafa fundið koparpening

Eitt stærsta safn miðaldaleirkerjabrota á Íslandi hefur fundist við fornleifauppgröft á Gásum við Eyjafjörð undanfarin ár og þá hefur fundist þar það sem talið er koparpeningur sem er sá fyrsti sem finnst við Gásakaupstað. Í tilkynningu frá Minjasafni Akureyrar kemur fram að flest eru leirkerabrotin eru þýsk eða ensk að uppruna og tímasett til 14. og 15. aldar. Í ár fundust leirkerjabrot sem rekja má til austurhluta Englands og til Rínlanda og þeirra á meðal voru brot úr krukku sem notuð var til að geyma olíur eða smyrsli. Fundur koparpeningsins hefur vakið nokkra athygli en hann er sá fyrsti sem fundist hefur í Gásakaupstað. Af því draga menn þær ályktanir að menn hafi haldið fast utan um peninga sína í verslunarferð sinni á Gásum og/eða að vöruskipti hafi verið algengari en viðskipti með peningum. Enn finnst töluvert magn af brýni sem flutt hefur verið inn frá Noregi, norskum bökunarhellum, járnnöglum til bátaviðgerða og hnífsblöðum. Þá hafa fundist skurðarbretti úr hvalbeini, auk beina sem unnið hefur verið í, að ónefndum sérstaklega vel varðveittum lífrænum efnum eins og leðri, en í sumar fundust hlutar úr leðurskóm. Síðustu sumur hefur mikið magn spendýra- og fiskibeina fundist á víð og dreif um kaupstaðinn. Ljóst er að nauta- og lambakjöt og harðfiskur voru uppistaðan í matarbirgðum á staðnum. Þessi uppgröftur styður þær hugmyndir sem fram hafa komið um hver þróun svæðisins hefur verið, þ.e. að starfsemin í Gásakaupstað hafi byrjað í norðvesturhlutanum en færst svo til austurs með tímanum. Sögulegar heimildar benda til þess að Gásakaupstaður hafi byggst upp vegna aðgerða höfðingjans og goðans Guðmundar dýra sem lagði niður Vaðlaþing, vorþingstað héraðsins, en það mun hafa verið seint á 11. öld. Við þessar aðgerðir tapar Kaupangur, sem var verslunarstaður við þingstaðinn, þýðingu sinni og Gásakaupstaður er talinn hafa tekið við. Vonast er til að rannnsóknir næsta sumar, sem jafnframt er það síðasta í þessari uppgraftarlotu, muni varpa ljósi á hvenær staðurinn byggðist upp. Með það að markmiði mun svæðið í norðvesturjaðri uppgraftarsvæðisins verða opnað en þar eru búðartóftirnar vel grónar og lítt sjáanlegar sem bendir til þess að þar séu elstu búðirnar staðsettar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×