Erlent

Fá að snúa aftur til New Orleans

Íbúar New Orleans mega fara að snúa aftur til borgarinnar á morgun, en margir þeirra hafa ekki að neinu að hverfa. Íbúar átta tiltekinna póstnúmerasvæða mega vitja heimila sinna snemma í fyrramálið. Húsin verða merkt með rauðum og grænum límmiðum. Rautt þýðir að íbúar mega fara inn í húsið, skoða skemmdir og sækja eigur sínar en ekki flytja inn aftur. Grænt merkir að fólk má flytja aftur inn ef það svo kýs. Eigendur fyrirtækja fá þó að vitja eigna sinna í dag. Aðrir hlutar borgarinnar verða opnir fyrir íbúa á fimmtudag í næstu viku fyrir utan eitt hverfi sem eyðilagðist í fellibylnum Katrínu og fékk svo yfir sig fellibylinn Rítu skömmu síðar. Íbúar St. Bernard, austur af New Orleans hafa hins vegar að engu að hverfa. Næstum allt eyðilagðist í fellibylnum og liggja leifarnar undir þykku lagi af jarðvegi. Líklega þarf að endurbyggja allt að 80 prósent af mannvirkjum á svæðinu frá grunni. Enn á eftir að bera kennsl á tæplega 400 fórnarlömb Katrínar en talið er að rúmlega ellefu hundruð manns hafi farist sökum fellibylsins sem gerir Katrínu að þriðja mesta mannskaðaveðri í sögu Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×