Innlent

Jaxlinn seldur úr landi

"Við erum ekki í neinni uppgjöf. Það hefur sýnt sig að það eru forsendur fyrir því að halda úti strandflutningum hér á landi og nú er þetta bara spurning um að hafa úthald," segir Ragnar Traustason, tannlæknir og útgerðarmaður Jaxlsins. Jaxlinn hefur verið gerður út til strandflutninga og hefur fyrst og fremst verið siglt milli hafna á Vestfjörðum og Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Ragnar staðfestir að til standi að selja Jaxlinn úr landi. "Við fengum tilboð sem við gátum ekki hafnað og leitum nú logandi ljósi að öðru skipi," segir Ragnar. Hann segir að nú þurfi útgerðin að fá skip sem sé ekki endilega stærra en Jaxlinn en sé frekar hannað til þess að bera fleiri gáma en Jaxlinn er fær um. Ragnar bendir á að Ísafjarðarbær hafi gert könnun meðal atvinnurekenda þar í bæ þar sem tæpur þriðjungur þeirra telur að flutningskostnaður og samgöngur hafi neikvæðust áhrif á rekstur fyrirtækja sinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×