Innlent

Ekki svona hvítt í áratugi

Snjórinn þykir koma heldur snemma í ár en vetrarfærð er víða á norðanverðu landinu og flestir ökumenn enn á sumardekkjunum. Slæmt veðurfar hefur eflaust einnig haft áhrif á smölun og réttir á mörgum stöðum. Sigtryggur Sigvaldason í Húnaþingi vestra í Víðidal segir að honum hafi gengið illa að finna fé sitt um helgina. "Það er orðið alveg hvítt hérna og við náðum ekki öllu fé í fyrradag en þá var skyldusmalamennska. Þetta er alveg einsdæmi og hefur ekki verið svona í marga áratugi, held ég. Ekki hefur það gerst áður í minni tíð að snjóað hafi svona snemma en ég er svo sem ekki nema fertugur. Við þurfum að fara aftur því við náðum ekki nema hluta af fénu en margt var til fjalla og náðist ekki heim," segir Sigtryggur og bætir því við að ekki eigi veðrið að lagast fyrr en í fyrsta lagi um miðja næstu viku. "Það er éljagangur hérna og afar vont veður. Þetta er ekki jákvætt því það eru stóðréttir hjá okkur um næstu helgi og hrossin eru ennþá á heiðum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×