Innlent

Njóta lakari réttinda

Erlendir starfsmenn starfsmannaleiga njóta lakari réttinda en íslenskir starfsmenn sem vinna sömu vinnu. Þetta segir formaður Verkalýðsfélags Akraness að sé mat yfirlögfræðings Samtaka atvinnulífsins í bréfi til verkalýðsfélagsins. Forsaga málsins er sú að fyrirtækið Ístak stóð ekki skil á stéttarfélagsgjöldum af tólf dönskum smiðum sem starfa við stækkun Norðuráls á Grundartanga. Formaður Verkalýðsfélags Akraness fór fram á að Ístak stæði skil á greiðslunum og jafnframt að verkalýðsfélagið fengi aðgang að ráðningarsamningum og launaseðlum starfsmannanna dönsku. Við þessu urðu Ístaksmenn ekki og sendu Samtökum atvinnulífsins erindi þar sem farið var fram á álit samtakanna á kröfum verkalýðsfélagsins. Svar yfirlögfræðings samtakann barst Verkalýðsfélagi Akraness í vikunni og þar kemur fram að Samtökin telji að starfsmenn sem hér starfi tímabundið á vegum starfsmannaleiga njóti, samkvæmt lögum, einungis lágmarkslauna, eigi rétt til yfirvinnugreiðslu og orlofsgreiðslna auk þess að njóta réttinda sem gilda um hámarks- og lágmarksvinnutíma. Þessu eru fulltrúar stéttarfélaganna ekki sammála og benda á að með þessu vanti talsvert upp á að útlendingar á slíkum samningum njóti sömu réttinda og kjara og lögfestir eru í kjarasamningum SA og Starfsgreinasambandsins. Útlendingar sem hingað komi sem starfsmenn leigumiðlana fyrir verkafólk og iðnaðarmenn séu þannig annars flokks á íslenskum vinnumarkaði, að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness. Hann segir að farið verði ítarlega yfir þetta, enda sé mjög mikið í húfi fyrir alla íslenska launþega. „Það er í rauninni hreyfingin í heild sinni sem þarf að skoða þetta mál,“ segir Vilhjálmur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×