Erlent

Ríta orðin fimmta stigs bylur

Meira en milljón manns hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín meðfram ströndum Texas vegna fellibylsins Rítu. Ríta er orðin að fimmta stigs fellibyl og þar með öflugri en Katrín sem reið yfir suðurströnd Bandaríkjanna í síðasta mánuði. Ríta hefur sótt í sig veðrið yfir Mexíkóflóa undanfarinn sólarhring og er nú orðin þriðji öflugasti fellibylur sögunnar og mun öflugri en fellibylurinn Katrín sem lagði New Orleans í rúst. Vindhraði Rítu er meira en 280 kílómetrar á klukkustund og er hún núna yfir miðjum Mexíkóflóa. Búist er við að fellibylurinn skelli á Texas-ströndum snemma á laugaradagsmorgun að staðartíma eða um hádegi að íslenskum tíma, en óttast er að Ríta kunni að valda gríðarlegri eyðileggingu í borginni Galveston í Texas þangað sem miðja hennar stefnir nú. Tugþúsundir lögreglu- og hermanna eru í viðbragðsstöðu vegna ástandsins og hafa þúsundir íbúa í Galveston og Houston þegar flúið heimili sín, en þegar er búið að keyra mörg hundruð bílfarma af vatni og matvælum að Mexíkóflóa. Borgarstjóri Houston-borgar segir að læra verði af mistökunum frá því í síðasta mánuði þegar Katrín gekk yfir suðurströnd Bandaríkjanna og olli gríðarlegri eyðileggingu. Mikið umferðaröngþveiti er í Houston og við helstu hraðbrautir við borgina. Íbúar í New Orleans, sem enn eru í losti eftir fellibylinn Katrínu og voru að undirbúa heimkomu sína, þurfa nú enn og aftur að flýja. George Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði í gærkvöldi að menn yrðu að vera búnir undir það versta en að allt yrði gert til að tryggja öryggi borgaranna. Hann hvatti alla þá sem hefðu fengið skipun um að yfirgefa heimili sín að virða þær skipanir þar sem hættuástandið væri gríðarlegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×