Erlent

Á brattan að sækja

"Svo virðist sem vinstriblokkin hafi náð forskotinu, en svona jöfn hefur baráttan aldrei verið í þingkosningum í Noregi. Þetta hefur verið mjög spennandi," sagði Svein Ludvigsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, í gærkvöldi, en hann er einn af forystumönnum Hægriflokksins. "Við töpuðum allmiklu fylgi og það á einnig við um Kristilega þjóðarflokkinn. Það er slítandi að sitja í ríkisstjórn og kannanir gáfu til kynna að við ættum á brattann að sækja. Og vitanlega harma ég það að við skulum ekki ná betri árangri." Vinstriflokkurinn náði góðum árangri og var spáð átta til tíu þingsætum í stað tveggja áður. Haldið var á lofti að flokkurinn hefði ekki síst unnið sigur sinn á kostnað Hægriflokksins. "Margir töluðu síðustu dagana fyrir kosningar um að það væri snjallræði að kjósa Vinstriflokkinn til að koma honum yfir fjögurra prósenta markið en þannig öðlaðist flokkurinn rétt til fjölda uppbótarþingsæta. Ég vil vitanlega að Hægriflokkurinn nái góðum árangri. En það skiptir líka miklu máli að hægriflokkarnir haldi velli," segir Svein Ludvigsen, sem brátt verður fylkisstjóri í Tromsfylki í Noregi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×