Innlent

Leitað að Ritu á þrennan hátt

Leitað er að íslensku konunni Ritu Daudin, sem býr í New Orleans, og syni hennar eftir þremur leiðum. Ættingjar þeirra hér heima hafa ekkert í þeim heyrt frá því að fellibylurinn Katrín fór yfir suðurströnd Bandaríkjanna. Ólafur Sigurðsson, sendiráðsfulltrúi í Washington, segir einn ræðismanna Íslands ætla að líta heim til hennar í dag og á sjúkrahús í nágrannabænum Slidell, þar sem sonur hennar býr og vinnur sem hjúkrunarfræðingur. Einnig hafi utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna verið tilkynnt um að þeirra sé leitað og Rauði krossinn fengið upplýsingar um mæðginin og sett þau á lista yfir fólk sem saknað sé. Ólafur segir mæðginin þau einu sem ekki hafi komið í leitirnar: "Aðstæðurnar eru erfiðastar til leitar inni í New Orleans borg. Þarna hefur verið rafmagnslaust og símasambandslaust um nokkurn tíma og fólk hefur verið beðið að yfirgefa borgina." Ólafur segir tólf aðra Íslendinga búa í New Orleans. Þeir séu óhultir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×