Innlent

Rauði krossinn býður aðstoð

Rauði kross Íslands hefur boðið bandaríska Rauða krossinum aðstoð vegna hjálparstarfsins í suðurhluta Bandaríkjanna í kjölfar fellibylsins Katrínar. Um er að ræða fimm til tíu manna teymi sem vinna í fjöldahjálparskýlum þar er tekið á móti fólki sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín. Í fréttatilkynningu frá Rauða krossi Íslands segir að bandaríski Rauði krossinn hafi tekið vel í boð þeirra um að senda fólk með reynslu og þekkingu á rekstri fjöldahjálparsstöðva og skýrist það á næstu dögum hvort boðinu verði tekið. Um áttatíu sérfræðingar Rauða krossins frá nokkrum landsfélögum Rauða krossins eru þegar á leið til Bandaríkjanna, en yfir 135 þúsund manns gista nú í skýlum Rauða krossins, sem eru yfir 470 talsins. Yfir 5 þúsund starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa útvegað yfir 2 milljónir máltíða síðan fellibylurinn reið yfir auk þess að veita fólki aðhlynningu og sálrænan stuðning.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×