Innlent

Átök um lóðir við Úlfarsfell

Reykjavíkurborg undirbýr að fullum krafti 450 sérbýlis- og fjölbýlishúsalóðir undir Úlfarsfelli fyrir næst áramót. "Borgin kemur þarna til móts við óskir borgarbúa um aukið lóðaframboð. Það skýtur því skökku við þegar Gísli Marteinn Baldursson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, vill hætta lóðaúthlutun við Úlfarsfell. Það er ekkert annað en lóðaskortsstefna sem hann boðar með þessu," segir Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi R-listans.. Gísli Marteinn hefur gagnrýnt mjög þessar fyrirætlanir borgaryfirvalda. "Þarna á að úthluta lóðum fyrir alls 900 íbúðir í fyrsta áfanga. Ég stend við það sem ég hef sagt. Úlfarsfell á ekki að vera í forgangi því við höfum nægt rými annars staðar. Til dæmis Geldinganes sem er í betri tengslum við aðra borgarhluta þegar Sundabrautin kemur. Ég get nefnt Mýrargötuskipulagið sem unnið er að. Og þess utan eigum við að beina sjónum okkar að vestari byggðum eins og í Örfirisey og Vatnsmýrinni. Það er hagkvæmara og umhverfisvænna fyrir borgina að byggja á þessum stöðum því það er engin lausn komin enn á samgöngumálum til og frá Úlfarsfellinu," segir Gísli Marteinn, en hann telur að lóðaframboð verði nægt þótt úthlutun yrði frestað við Úlfarsfell. Alfreð segir að borgaryfirvöld hafi haft á stefnuskrá að þétta byggð vestan Elliðaánna en jafnframt viljað gefa kost á lóðum á eftirsóttum stöðum eins og við Úlfarsfell. "Þetta er í skjólsælum suðurhlíðum líkt og Fossvogsdalurinn og á áreiðanlega eftir að verða eftirsótt íbúðahverfi. Núverandi Vesturlandsvegur annar aukinni umferð til og frá þessu svæði fyrstu árin. Fjarlægðin þaðan í miðborgina er ekkert meiri en í nýbyggðum hverfum Kópavogs og Garðabæjar. Ég skil ekki þennan málflutning Gísla Marteins. Hann hefur greinilega ekki kynnt sér málið nægilega vel," segir Alfreð Þorsteinsson. Hann kveðst þess fullviss að með auknu framboði á lóðum lækki verð þeirra frá því sem nú er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×