Erlent

Rehnquist fallinn frá

William H. Rehnquist, sem var forseti hæstaréttar Bandaríkjanna í nærri tvo áratugi, lést á heimili sínu á laugardag. Banamein hans var krabbamein. George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði Rehnquist hafa verið gæddan miklum mannkostum. Í ávarpi í Hvíta húsinu sagði Bush að hann myndi hraða ákvörðun um skipun nýs dómara. Með fráfalli Rehnquists gefst Bush færi á að skipa annan æviráðinn dómara í Hæstarétt, sem reynst hefur gegna mikilvægu pólitísku hlutverki í stjórnskipun Bandaríkjanna. Í júlí í sumar skipaði Bush John Roberts, tiltölulega ungan lögfræðing sem sagður er harður hægrimaður, í dómarastöðuna sem losnaði er Sandra Day O'Connor dró sig í hlé af heilsufarsástæðum. Síðast þegar það gerðist að tvær dómarastöður losnuðu í Hæstarétti Bandaríkjanna samtímis var árið 1971, en þá skipaði Richard Nixon Rehnquist í réttinn. Hann varð forseti réttarins árið 1986, í forsetatíð Ronalds Reagan, og gegndi því embætti fram í andlátið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×