Erlent

Minntust komu Andersens til Köben

Kaupmannahöfn breyttist í sannkallað ævintýraland þegar borgarbúar héldu 4. september hátíðlegan, en þann dag árið 1819 kom H.C. Andersen fyrst til höfuðborgarinnar. Meira en þúsund manna eða persónu skrúðganga fylgdi ungum H.C. Andersen inn í borgina í gær í sól og blíðu. Allir voru auðvitað klæddir í viðeigandi búninga sem persónur úr einhverjum þeirra ótal skemmtilegu ævintýra sem Andersen skrifaði á lífsleiðinni. Gangan hófst við Friðriksborgarkastala, liðaðist um borgina og endaði fyrir framan Tívolíið. María krónprinsessa, kona Friðriks krónprins, setti hátíðahöldin og veitti verðlaun í alþjóðlegri bréfaskriftakeppni sem haldin var til að heiðra minningu H.C. Andersens, en hann hefði orðið 200 ára á þessu ári. Börnin kunnu auðvitað sérstaklega vel að meta skemmtunina, jafnvel þótt risahumar réðist á þau sum. Pia Jette Hansen skrúðgöngustjóri sagði að öllum helstu ævintýrum skáldsins hefðu verið gerð skil í skrúðgöngunni. Ævintýrin væru hluti af göngunni og fólk hefði verið beðið um að láta ímyndunaraflið ráða ferðinni. Danir hafa verið afskaplega iðnir við að halda upp á ýmislegt tengt H.C. Andersen undanfarið, en það er greinilega fjarri því að þeim séu farin að leiðast öll þessi hátíðahöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×