Erlent

Brottflutningi að ljúka

Brottflutningi íbúa frá New Orleans er að mestu lokið. Bæði íþróttahöllin SuperDome og ráðstefnumiðstöð borgarinnar hafa verið tæmdar af fólki. Björgunarmenn hafa heyrt hrikalegar sögur af því sem gekk á á meðan tugþúsundir íbúa biðu dögum saman eftir að aðstoð bærist. Vefur bresku fréttastofunnar BBC hefur eftir einum flóttamannanna sem hafðist við í ráðstefnumiðstöðinni að konum hafi ekki verið óhætt að fara á baðherbergið einar síns liðs. Þar hafi mörgum verið nauðgað og nokkrar þeirra myrtar. Í einu tilviki hafi uppgötvast hver var að verki og sá maður hafi verið barinn til dauða af æstum lýðnum. Þúsundir þjóðvarðliða hafa nú nokkurn veginn náð stjórn á borginni og byrjað er að safna saman líkum fórnarlambanna. Enn er þó engin leið að vita hversu margir fórust. Meira en milljón manna er heimilislaus eftir yfirreið fellibylsins og óvíst hvenær fólk getur snúið aftur. Hreinsunar- og uppbyggingarstarf mun taka marga mánuði, ef ekki ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×