Erlent

Helvíti á jörðu

Glundroði og gripdeildir hafa einkennt New Orleans-borg síðustu daga. Lögreglumenn hafa skilað inn skjöldum sínum á meðan stigamenn fara um ruplandi og rænandi. Óveðrið á mánudaginn var aðeins byrjunin á raunum þeirra sem ekki náðu að flýja New Orleans. Síðustu daga hefur borgin orðið algjöru stjórnleysi að bráð sem yfirvöld hafa átt fullt í fangi með að ná tökum á. Skotið hefur verið á hjálparstarfsmenn sem reynt hafa að bjarga sjúkum og þjáðum. Einna verst hefur ástandið verið við Louisiana Superdome-íþróttaleikvanginum og í ráðstefnumiðstöð New Orleans, þar sem tugþúsundir strandaglópa sitja fastar. Á síðarnefnda staðnum hafði fólkið beðið matar- og drykkjarlaust dögum saman í kæfandi hita innan um rotnandi lík eftir aðstoð. "Hér er hvorki matur né vatn. Þeir skjóta og drepa fólk," sagði Tishia Walters, ein hinna bágstöddu, í samtali við CNN. "Menn eru rændir á klósettunum og konum nauðgað og því kýs fólk að gera þarfir sínar á gólfið. Hér ríkir alger upplausn." Þrátt fyrir að yfirvöld hafi hvatt íbúa borgarinnar til að halda þangað kvaðst talsmaður Almannavarna Bandaríkjanna (FEMA) hafa fyrst frétt af mannsöfnuðinum þar í gær. Í dögun gærdagsins varð mikil sprenging í efnageymum á járnbrautarstöð borgarinnar. Ekki er vitað um manntjón af völdum sprengingarinnar en talsverður eldur kviknaði í kjölfarið og logaði næturhimininn af þeim völdum Fjöldi lögreglumanna er sagður hafa lagt niður störf á svæðinu. Einn þeirra líkti ástandinu við upplausnina í Sómalíu á sínum tíma þar sem samfélagið hrundi með öllu. Annar sagði glæpamenn bæði fjölmennari og betur vopnaða en lögregluna. Í gær voru svo sjö þúsund þjóðvarðliðar sendir til borgarinnar til þess að stilla til friðar, stöðva gripdeildir og dreifa hjálpargögnum. Steven Blum höfuðsmaður sagði helming þeirra vera nýkominn frá Írak og þeir væru því "mjög vanir í að beita lífshættulegum krafti."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×