Innlent

Sílabrestur kemur niður á varpi

Varp fugla sem reiða sig á sandsíli til átu virðist í ár hafa misfarist í stórum stíl. "Þetta kemur meðal annars niður á lunda, en afar lítið hefur verið um að ungar komist á legg. Svo vitum við að þetta á við um kríu og ýmsa fleiri sílafugla, að varpið hefur gengið illa hjá þeim víðast hvar á landinu," segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. Kristinn Haukur bendir þó á að ekki hafi mikið að segja þó svo að eitt ár detti úr í varpi hjá svona fuglum vegna langlífis þeirra. "En ef hins vegar er viðkomubrestur ár eftir ár þá mun náttúrlega stofnunum hnigna. En við þekkjum til dæmis frá Norðursjó og Norður-Noregi að lundastofninn þar hefur verið á hraðri niðurleið og vonum að við séu ekki að sigla inn í slíkt tímabil hér," segir hann, en orsökin var sú sama þar, brestur í sílastofni. Hann segist telja að lítið sé fylgst með stærð sílastofna, nema í gegn um þorskmaga. "Þetta er dæmigert fyrir tegundir fiska sem fá ekki þá athygli sem þeim ber, en eru undirstöðufæða fyrir margar sjófuglategundir," segir hann og telur áhyggjuefni að ekki sé betur fylgst með stærð sílastofna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×