Erlent

Norðmenn endurvekja Gulaþing

Norðmenn freista þess nú að endurvekja forna frægð Gula-þings og minna um leið á að það var fyrirmynd Alþingis Íslendinga á Þingvöllum Þegar Íslendingar sýna útlendingum Þingvelli þá segja þeir stoltir frá að þar hafi elsta þjóðþing veraldar verið stofnað. En nú vilja Norðmenn einnig hefja á loft forna frægð sinna eigin þinga. Um síðustu helgi afhjúpaði Kjell Magne Bondevik minnisvarða um Gulaþingið í Vestur-Noregi, 22 steinsúlur. Fólk fjölmennti til að hlýða á ræður fyrirmenna og horfa á leikþætti um atburði víkingatímans. Minnt var á þarna hafi þinghald hafist áður en Ísland byggðist og að Gulaþing hafi verið fyrirmynd Alþingis Íslendinga. Íslenskar lögbækur, eins og Járnsíða, byggðu á Gulaþingslögum og þingið kemur fyrir í Íslendingasögum, svo sem Egilssögu. Það náði yfir Fjarðafylki, Sognsfylki og Hörðafylki, var háð við Gulafjörð sunnan Sognsfjarðar, og að mati forsætisráðherra Noregs hafði það mikla þýðingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×