Innlent

Tvístruðu okkur með hræðsluáróðri

Laufey Jónsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður á gæsluvellinum í Hamravík í Grafarvogi, var tregafull þegar hún læsti honum í hinsta sinn í gær en hún hefur starfað þar í 16 ár. Líklega fundu fleiri til trega því 90 ára sögu gæsluvalla Reykjavíkur lauk í gær. Laufey segir að gæsluvellirnir hafi haft margt til síns ágætis sem söknuður verði af. Til að mynda sé lögð mikil áhersla á útivist á gæsluvöllum. Guðrún Guðjónsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður á gæsluvellinum Malarási í Arbæ, sagði á sínum síðasta vinnudegi í gær að vissulega hefði dregið úr aðsókn á gæsluvellina en það sé vegna þess að ekki hefði verið hugað að því að láta þá mæta breyttum kröfum og þörfum foreldra í þjóðfélaginu. Eftir að gæsluvöllum var lokað hittust gæslukonur á gæsluvellinum við Njálsgötu en hann er sá elsti. Þar næst héldu þær kveðjufund í húsi BSRB við Grettisgötu. Guðrún er ein þeirra sem ekki hafa skrifað undir starfslokasamning við Reykjavíkurborg og hyggst hún ekki gera það fyrr en kröfum gæslukvenna verði fyllilega mætt. Tuttugu og tvær konur eru í félagi gæslukvenna og segir Guðrún að rúmlega helmingur þeirra hafi skrifað undir starfslokasamning. "Borginni tókst að tvístra okkur með hræðsluáróðri," segir Guðrún og ítrekaði að enginn uppgjafartónn sé í þeim sem ekki hefðu látið hræða sig til að skrifa undir og væru þær nú að íhuga hvað tekið verður til bragðs í stöðunni. Laufey starfar hins vegar áfram hjá borginni við starfsmat og var full tilhlökkunar þótt hún segðist eiga eftir að sakna barnanna og góðs starfsanda á gæsluvellinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×