Erlent

Áhrifa fellibylsins mun gæta lengi

Áhrifa Katrínar mun gæta um langan tíma. Hún eyðilagði stóran hluta þess húsnæðis sem varð á leið hennar, eiturefni og skólp blandast flóðavatninu og áhrifin á efnahagslífið í Bandaríkjunum gætu orðið mikil. Óvíst hvað gert verður við alla þá sem misst hafa heimili sín á hamfarasvæðinu og þá tugi þúsunda sem hafast við á íþróttaleikvanginum Superdome, þar sem aðstæður eru orðnar mjög slæmar eftir að hlutar byggingarinnar skemmdust í veðrinu og rafmagn og vatn fóru af. Salernin eru á floti og loftræstingin er úr lagi, en yfir þrjátíu stiga hiti er í Louisiana sem stendur. Meira en 40 þúsund manns hafast nú við í neyðarskýlum sem rauði krossinn hefur komið upp og enginn snýr til baka til síns heima næstu vikurnar og jafnvel gætu liðið nokkrir mánuðir áður en fólk fær að fara aftur til New Orleans. Talið er að koma verði á fót hálfgerðum flóttamannabúðum í nánd við New Orleans, þar sem óttast er að á milli sextíu og áttatíu prósent bygginga í borginni séu ónýtar. Sérfræðingar hafa einnig áhyggjur af langtímaáhrifum Katrínar og flóðavatnsins og telja að New Orleans gæti breyst í hreina rotþró fulla af hættulegum eiturefnum, skólpi og líkkistum úr hinum þekktu kirkjugörðum borgarinnar, sem eru á floti. Enginn veit í raun hvernig á að bregðast við vatninu sem liggur nú yfir borginni eða öllu því sem hefur blandast því. Þetta gæti hins vegar haft víðtækar afleiðingar á borð við farsóttir sem þekktastar eru í þróunarlöndum, ekki síst meltingarvegssjúkdómar af öllum gerðum. Moskítóflugur fjölga sér einnig í vatni og bætu borið til dæmis Vestur-Nílar vírusinn með sér. Og svo eru það efnahagsáhrifin, sem eru ekki síst vegna mikilvægi hamfarasvæðisins í olíuvinnslu. Tíu prósent þeirrar olíu sem notuð eru í Bandaríkjunum koma úr Mexíkóflóa og helmingur allar olíu fer í gegnum hreinsunarstöðvar þar. Stjórnvöld í Washington íhuga fyrir vikið að veita olíu úr neyðarbirgðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×