Innlent

Íhuga að skjóta mávinn

Mávum hefur fjölgað verulega í höfuðborginni í sumar og hefur borgaryfirvöldum borist óvenjumikið af kvörtunum vegna þessa. Þetta kom fram í svari frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Gísla Marteins Baldurssonar, varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, á fundi umhverfisráðs borgarinnar. Í svarinu kemur fram að ástæða fjölgunarinnar sé óljós og að til ýmissa aðgerða sé hægt að grípa til að fækka mávum. Þar á meðal er svæfing varpfugla á hreiðrum, eyðileggingu eggja, skotveiðar og fleira. Gísli Marteinn lagði til á fundinum að gripið yrði til nauðsynlegra aðgerða með það markmið að fækka mávi í borginni en ýmsir halda því fram að mávar ógni lífríki anda við tjörnina og hirði þá brauðmola sem borgarbúar færa öndunum. Umhverfisráð frestaði afgreiðslu málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×