Innlent

Samkeppni einkum á matvælamarkaði

Samkeppnin er aðallega á matvælamarkaði og þó svo að krónan lækki er alls ekki víst að innfluttar vörur hækki. Samkeppni hefur eflaust verið hvað hörðust á matvörumarkaði enda verð á innfluttum vörum að miklu leyti verið í takt við gengisþróun. Eysteinn Helgason, framkvæmdastjóri innkaupasviðs hjá Kaupási, bendir á að frá áramótum hafi gengisvísitalan lækkað um fjögur prósent en vísitala matar- og drykkjarvöru um sjö prósent. Fréttastofa Stöðvar 2 athugaði verð á innflutri vöru, Cocoa Puffs pakka, sem kostaði fyrir tveimur árum 365 krónur. Í ljós kom að hann kostar í dag 197 krónur. Eysteinn segir ekki óeðlilegt að matvara hækki þegar krónan veikist á ný. Hann segir það þó allt eins geta gerst að verð haldi áfram að lækka á matvörumarkaði vegna verðstríðs sem eflaust komi til með að halda áfram. Það sé engin grein á Íslandi sem búi við virkari samkeppni en matvörumarkaðurinn þannig að það sé fyrst og fremst hún sem ráði því að menn fylgi mjög vel sveiflunum. En þrátt fyrir að verð lækki á matvörumarkaði lítur út fyrir að almenningur taki lítið eftir því ef marka má viðbrögð viðmælenda fréttastofu Stöðvar 2.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×