Innlent

Barnavændi á Íslandi

Upplýsingar um skipulagt barnavændi á Íslandi koma fram í viðtalsbók eftir Gerði Kristnýju sem væntanleg er í haust. Bókin byggist á viðtali við hafnfirska konu á fertugsaldri sem lýsir reynslu sinni af því hvernig hún var þvinguð í vændi sem barn, auk þess sem stuðst er við málsskjöl. Maður, sem nú er látinn, var dæmdur í héraði en sýknaður í hæstarétti fyrir að standa á bak við barnavændið. Gerður Kristný segist hafa skrifað þessa bók vegna þess að viðmælandinn leitaði til hennar fyrir tveimur árum. "Við hittumst á Hótel Borg og þar reifaði hún fyrir mér sögu sína og spurði hvort ég hefði áhuga á að skrifa um þetta. Í ljósi þess hve ævi hennar hefur verið svakaleg hvarflaði ekki að mér að neita," segir Gerður. Hún segist ekki efast um að bókin eigi eftir að vekja mikla athygli. "Enda varpar bókin ljósi á meingallað réttarfar, sem við skulum vona að heyri sögunni til og samfélag sem kom litlum börnum ekki til hjálpar." Vegna þess hve efnið er viðkvæmt leitaði Edda útgáfa, sem gefur bókina út, til lögfræðinga. Í vikunni komust þeir að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að fjallað sé um nafngreinda menn, verði efni bókarinnar trúlega ekki tilefni málssókna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×