Innlent

Fjölbreytni í dagskrá Þjóðleikhúss

Fjölbreytnin ræður ríkjum í vetrardagskrá Þjóðleikhússins - söngur, gaman, konunglegur barnaballet og rússnesk gestasýning er meðal þess sem þar verður boðið upp á. 57. leikár Þjóðleikhússins hefst á næstu dögum og er Tinna Gunnlaugsdóttir leikhússtjóri að þessu sinni. Þetta er í fyrsta sinn sem kona gegnir því hlutverki og var Tinna spennt fyrir komandi vetri þegar hún kynnti leikárið á Stóra sviðinu í dag. Húm sagðist telja að boðið væri upp á spennandi dagskrá sem kæmi til með að höfða til fólks. Listinn er langur yfir það sem finna má í leikhúsinu í vetur en meðal þess sem þar er boðið upp á eru söngleikir, gamanleikir, gestasýningar frá Vesturporti og Rússlandi, brúðusýning fyrir fullorðna, barnaballet frá Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn, Sumaróperan, samvinna við þýskan leikstjóra, verk sérstaklega ætluð ungu fólki og fleira. Kassinn, nýtt svið í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar, verður opnaður um áramótin með verkinu Pétri Gauti en þar eru sæti fyrir allt að 180 gesti. Með dagskánna í huga má velta fyrir sér hver hápunktur vetrarins verði. Tinna segir af mörgu að taka þegar hún er beðin um að nefna hápunktinn og segir í raun marga hápunkta. Leikhússtjórinn kunni auk þess dagskrána utanbókar. Hún sagði fyrstu sýninguna 31. ágúst en þá yrði leikritið Klaufar og kóngsdætur sýnt. 2. september yrðu svo sýningar á Edit Piaf og Rambó og Koddamaðurin yrði sýndur 8. september. Fyrsta frumsýningin yrði svo 14. október, en það væri Halldór í Hollywood.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×