Erlent

Katrín að skella á New Orleans

Fellibylurinn Katrín er nú við það að skella á New Orleans af fullum krafti. Óttast er að meirihluti borgarinnar geti farið á kaf í vatni og milljón borgarbúa hið minnsta hafa flúið heimili sín. Vindhraðinn í Katrínu er nú í kringum 67 metrar á sekúndu og hefur heldur dregið úr krafti hennar eftir því sem hún hefur þokast nær landi í morgun. Hún er þó eftir sem áður gríðaröflug, af stærðargráðu fjögur, og einhver öflugasti fellibylur sem gengið hefur yfir Louisiana um áratuga skeið. Vaxi henni ásmegin á ný yrði hún fjórði fellibylurinn af stærðargráðu fimm sem gengur yfir Bandaríkin frá því að mælingar hófust. Það er þó ekki vindurinn sem flestir hafa áhyggjur af í New Orleans þó að hann muni væntanlega valda miklum skaða. Sjötíu prósent borgarinnar liggja undir sjávarmáli í hálfgerðri skál og allt í kring eru ár og stöðuvötn sem talið er víst að flæði yfir stíflugarða sem umlykja borgina. Talið er hugsanlegt að yfirborð vatnsins hækki um yfir átta metra þegar stormurinn gengur yfir, sem þýðir að stór hluti borgarinnar færi á kaf, þar á meðal hið margfræga franska hverfi. Fyrir utan vatnskemmdir er óttast að eiturefni úr verksmiðjum sem og úrgangur úr skólpkerfi myndi blandast flóðavatninu og auka enn frekar á skemmdirnar. Stræti borgarinnar eru tóm og yfir milljón íbúa hefur yfirgefið heimili sín. Í Bourbon Street, þar sem börum er aldrei lokað, er búið að loka og negla fyrir glugga. Í morgun voru helstu þjóðvegir frá New Orleans enn þá stíflaðir þar sem fólk reyndi að koma sér af hamfarasvæðinu. Nærri þrjátíu þúsund manns hafa komið sér fyrir í neyðarskýli á íþróttaleikvanginum Superdome. Nú er haldið í þá veiku von að stormurinn skelli ekki af fullum krafti á borginni en veðurfræðingar segja hann raunar hafa tekið stefnuna í austur og því sé hugsanlegt að New Orleans sleppi betur en útlit var fyrir. Fyrir utan Louisiana stefnir Katrín yfir ríkin Mississippi og Alabama, þar sem einnig hefur verið lýst yfir neyðarástandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×