Innlent

Tólf íslenskir strandaglópar

Fjórar íslenskar fjölskyldur, 12 manns, eru strandaglópar á Hjaltlandseyjum eftir að Norræna ákvað að sleppa viðkomu í eyjunum í síðustu ferð sinni vegna veðurs. Fólkið átti að koma hingað til lands með ferjunni síðasta fimmtudag, en tefst um viku vegna þessa. Símon Á. Sigurðsson húsbílseigandi, sem er einn strandaglópanna, segir verst hafa verið að sjá um 80 erlenda ferðamenn sem ætluðu að sækja landið heim verða frá að hverfa. Hann segir hins vegar ekkert hægt að kvarta yfir viðbrögðum Smyril Line. "Þeir buðu okkur hvað sem var, hótel eða flug heim, en við erum hér á húsbílum og höfum það bara gott, en þeir ætla að gera gott við okkur í staðinn. Þeir standa sig mjög vel í því þótt við séum náttúrlega dálítið leið á heilli viku í viðbót," segir hann, en bætir þó við að á Hjaltlandseyjum sé margt að skoða og ein vika hefði í raun ekki nægt til þess. "Þegar maður er á húsbíl eru manni allir vegir færir." Símon segir að vissulega hafi töfin komið sé illa vegna þess að fólk hafi átt að vera komið í vinnu, en þeim málum hafi bara verið reddað. Fólkið leggur af stað heimleiðis með Norrænu á morgun og er væntanlegt til Seyðisfjarðar næsta fimmtudagsmorgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×