Innlent

Tónlistarhús kynnt í október

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi, segir að tónlistar- og ráðstefnuhöllin sem mun rísa á hafnarbakkanum sé eitt albesta og frambærilegasta uppbyggingarverkefni Íslandssögunnar. Hún verður kynnt landsmönnum í október. Gert er ráð fyrir að höllin verði opnuð árið 2009. Enn er einn og hálfur mánuður þar til landsmenn fá að sjá hvers konar ráðstefnu og tónlistarhús muni rísa á Hafnarbakkanum. Dagur B. Eggertsson segir að rætt hafi verið í þaula hvernig skyldi standa að vali á útliti og skipulagningu hallarinnar eins og hann orðar það sjálfur. Meðal annars hafi komið til greina að leyfa Reykvíkingum að koma meira að ákvörðuninni en gert hefur verið. Hins vegar hafi sú ákvörðun verið tekin að skipa sérstaka matsnefnd á öllum sviðum, þar á meðal arkitekta, listamenn endurskoðendur og fleiri sérfræðinga, til að vinna saman að verkefninu en Dagur segir alla þessa þætti þurfa að haldast í hendur til að vel takist til. Dagur vill ekki gefa upp hversu mikið hóparnir tveir bjóða í verkið né hvað felist í tillögum þeirra. Hann segir þó að báðir geri þeir ráð fyrir hóteli í áætlunum sínum og mun Landsbankinn einnig vera í húsinu. Ríki og borg munu leggja um 600 milljónir króna á ári til verksins en samið verður til 35 ára. Sá hópur sem fær verkið þarf sjálfur að fjármagna byggingarnar og reksturinn en getur reiknað með peningum frá ríki og tekjum frá Sinfóníunni sem fær aðsetur í tónlistarhúsinu. Nú er ljóst að annað hvort Portus Group, sem er í eigu Landsbankans, fasteignafélgasins Nýsis og Íslenskra aðalverktaka eða Fasteign, sem er í eigu Íslandsbanka, nokkurra sveitarfélaga og fasteignarekstrarfélagsins Klasa, fá að byggja tónlistar- og ráðstefnuhöllina á Hafnarbakkanum í Reykjavík en gert er ráð fyrir að hún opni eigi síðar en 2009.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×