Innlent

Lélegt lundavarp í Vestmannaeyjum

Kalt vor, lítið æti í sjónum og norðanhretið á stóran þátt í því að lundavarp hefur verið lélegt í Vestmannaeyjum og fáar pysjur komist á legg. Sandsílið er horfið úr sjónum og lundinn leitar nú á önnur mið en sænál hefur verið hans aðalæti í sumar. Straumur af fullorðnu fólki og börnum, sem heldur á kössum með ófullburða pysjum, liggur inn á Náttúrugripasafn Vestmanneyja. Fólki sýnist ekki allt vera með felldu hvað varðar lundapysjurnar og tekur Kristján Egilsson, forstöðumaður Náttúrugripasafnsins, undir þessar áhyggjur manna. Hann segir þetta vera mjög óvanalegt þettta árið og mikið um ófullburða pysjur. Kristján kennir um köldu vori seint varp og eins ætisskorti í sjónum. Lundinn hefur töluvert leitað í sænál sem hefur ekki verið hluti af æti hans hingað til. Hann segist ekki geta ímyndað sér að mikill matur sé í sænálinni fyrir pysjuna þar sem mikið er um bein í henni. Meðalþyngd pysjanna í ár er rétt rúmlega 200 grömm. Sé tekið mið af undanförnum árum er meðalþyngdin talsvert hærri, nær 300 grömmum. Árlega eru um 5-6000 pysjur sem börnin bjarga en nú finnst bara ein og ein og þá mikið undir venjulegri þyngd. Og Kristján segir hiklaust að hér sé eitthvað að gerast sem þurfi að rannsaka og að þetta sé ekki einungis bundið við Eyjar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×